Álit um landsrýniskýrslu stjórnvalda til Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin

Frumkvæðismál (2304153)
Framtíðarnefnd

Nefndarfundir

Dagsetning Fundur Bókun
16.05.2023 12. fundur framtíðarnefndar Álit um landsrýniskýrslu stjórnvalda til Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin
Á fundi nefndarinnar, 2. maí, kynnti forsætisráðuneytið drög að landsrýniskýrslu stjórnvalda til Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin og óskaði eftir áliti nefndarinnar á drögunum. Á grundvelli 21. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991 og 2. mgr. 2. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis bókar nefndin eftirfarandi:

Heimsmarkmiðin eru vegvísir að sjálfbærri þróun og ættu að vera undirstaða allrar stefnumótunar og aðgerða stjórnvalda. Markmið heimsmarkmiðanna falla vel að markmiðum framtíðarnefndar sem hefur það hlutverk að fjalla m.a. um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar; gervigreind og sjálfvirknivæðingu, umgengni við náttúruna og lýðfræðilegar breytingar. Í síbreytilegum heimi er mikilvægt að langtímamarkmið stjórnvalda séu skýr og séu unnin með aðkomu sérfræðinga, kjörinna fulltrúa og almennings. Heimsmarkmiðin eru ein bestu verkfærin sem við höfum til þess og er mikilvægt að samráð sé reglulegt og á sem breiðustum grunni. Með því tryggjum við langtímahugsun og að stefnan sé skýr óháð kosningum og breytingum í stjórnkerfinu.
Nefndin tekur undir þær tillögur að ungt fólk fái stærra rými í stefnumótun stjórnvalda. Hlusta þarf sérstaklega á framtíðina sem mun erfa landið en jafnframt þarf líka að vera til vettvangur fyrir eldra fólk, sem býr yfir mikilli reynslu. Nefndin telur mikilvægt að stjórnvöld skapi vettvang og tækifæri fyrir aukna aðkomu almennings að stefnumótun stjórnvalda. Hægt væri að horfa til rökræðukannana og vinnslu sviðsmynda. Sviðsmyndir draga fram ólíkar birtingarmyndir framtíðar og eru afar góð leið til að opna fyrir nýjar hugmyndir og efla stefnumótandi ákvarðanir. Þannig er hægt að fjalla um mikilvægustu málefni framtíðarinnar á lýðræðislegan hátt og upplýstum grunni. Með aukinni hlutdeild almennings eflist traust og tiltrú hans á framtíðarsamfélaginu.
Samfara loftslagsbreytingum er óhjákvæmilegt að viðmiðaskipti eigi sér stað hjá mannkyninu. Slík viðmiðaskipti krefjast þátttöku alls samfélagsins og mikilvægt að virkja öll til þátttöku. Á tímum þar sem loftslagsbreytingar eiga sér stað eða eru yfirvofandi verður að standa vörð um mannréttindi, kvenréttindi sem og réttindi jaðarsettra hópa sem verða í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Í nýrri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar kemur fram að nauðsynlegt sé að flýta öllum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Framtíðarnefnd leggur áherslu á að aðgerðir í þágu umhverfis- og loftslagsmála séu í forgangi með sérstaka áherslu á sanngjörn umskipti, hringrásarhagkerfið og vernd líffræðilegs fjölbreytileika.
Framtíðarnefnd telur að áhrif tæknibreytinga þurfi að gagnast einstaklingum, samfélaginu og umhverfinu í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Virkt samtal er nauðsynlegt svo nýta megi tæknina á jákvæðan hátt og hindra neikvæðar afleiðingar hennar. Einnig er mikilvægt að þær athugasemdir sem koma fram í skýrslunni og frá umsagnaraðilum í kjölfar birtingar hennar verði teknar til umræðu hjá stjórnvöldum og brugðist verði við þeim.
09.05.2023 11. fundur framtíðarnefndar Álit um landsrýniskýrslu stjórnvalda til Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin
Nefndarmenn unnu að drögum álits um landsrýniskýrslu stjórnvalda til Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin.
02.05.2023 10. fundur framtíðarnefndar Kynning á landsrýniskýrslu stjórnvalda til Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin
Karen Björk Eyþórsdóttir, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu kynnti landsrýniskýrslu stjórnvalda til Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin. Þess var farið á leit við framtíðarnefnd að skila áliti á skýrslunni og var það samþykkt samhljóða.